Um sveitina

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 í kjölfar Geysis slyssins. Sveitin hefur á að skipa mörgum færum einstaklingum sem hafa hlotið mikla þjálfun í ýmsum tegundum björgunarstarfs. 

Frábær jólagjöf:
Björgunarsveitin mín er gefin út í tilefni 70 ára afmæli Flugbjörgunarsveitarinna. Arngrímur Hermannsson félagi í FBSR er höfundur bókarinnar og safnaði hann saman áhugaverðum frásögnum frá fjölmörgum félögum svo að úr varð einkar áhugaverð, fróðleg og skemmtileg bók. Í bókinni eru hvoru tveggja leitar- og björgunarsögur og ferðasögur félaga Flugbjörgunarsveitarinnar. Þá fylgja sögunum hundruð áhugaverðra ljósmynda sem bæði voru í einkaeigu og einnig í safni sveitarinnar. 
Smelltu hér til að kaupa bókina

Saga FBSR

Þann 14. september árið 1950 fórst á Vatnajökli íslenska farþegaflugvélin Geysir TF-RVC á leið frá Luxemburg. Flugvélin var hlaðin varningi en engir farþegar voru um borð, aðeins sex manna áhöfn. Öll áhöfnin lifði slysið af, en sumir slösuðust eitthvað. Nokkrum dögum síðar fannst flakið á jöklinum eftir mjög umfangsmikla leit úr lofti. Engin sérhæfð fjallabjörgunarsveit var til á Íslandi á þeim tíma. Þeir sem björguðu fólkinu voru þaulvanir ferðamenn úr útivistarfélögum á Akureyri og í Reykjavík, sem þekktu hálendi Íslands. Í kjölfarið vaknaði áhugi á að setja á stofn björgunarsveit sem gæti tekist á við björgun sem þessa og um mánuði síðar, eða 24. nóvember hittust 22 menn í félagsheimili íslenskra einkaflugmanna og stofnuðu Flugbjörgunarsveitina Reykjavík, skammstafað FBS. Á framhaldsstofnfundi 27. nóvember voru fleiri mættir, en þar var gengið frá lagamálum og öðru sem fylgdi að stofna slíkt félag.

Flak Geysis á Vatnajökli. Ljósmynd/Edward Sigurgeirsson

Á stofnfundinum var m.a. eftirfarandi samþykkt: „Fundurinn ályktar að markmið félagsins sé fyrst og fremst að aðstoða við björgun manna úr flugslysum og leita að flugvélum sem týnst hafa. Í öðru lagi að hjálpa þegar aðstoðar er beðið og talið er að sérþekking og tæki félagsins geti komið að gagni.“ Þetta markmið Flugbjörgunarsveitarinnar stendur að mestu óbreytt í dag.

Á fyrsta starfsári sveitarinnar var hún kölluð út sex sinnum, þar af þrisvar vegna leitar að flugvélum. Fyrsta leitin var að flugvélinni Glitfaxa, Douglas DC-3 flugvélar Flugfélags Íslands, sem fórst í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli, þann 31. janúar 1951, með 20 manns.

Með tilkomu fleiri Flugbjörgunarsveita víða um land var farið að vísa sérstaklega til staðsetningarinnar í Reykjavík í nafni sveitarinnar. Ber hún í dag nafnið Flugbjörgunarsveitin Reykjavík, skammstafað FBSR.

Flugbjörgunarsveitin hefur frá upphafi haft aðsetur á eða í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll, lengi með góðum stuðningi frá Flugmálastjórn. Hefur flugið enda verið stór hluti af sögu sveitarinnar og samstarf í gegnum tíðina ávallt verið gott við flugmálayfirvöld, flugfélög, Rannsóknarnefnd flugslysa og aðra sem tengjast fluginu.

Félagar og búnaður

Eitt af markmiðum Flugbjörgunarsveitarinnar er að hafa ávallt vel þjálfaða björgunarmenn. Gerðar eru miklar kröfur til hæfni þeirra, bæði líkamlega og andlega og hefur sveitin á hverju ári nýliðaþjálfun sem tekur hvern nýliðahóp tvö ár. Nýliðaþjálfunin er ströng og félögum gefst síðan kostur á símenntun og endurmenntun í björgunarsvæðum, bæði hér á landi og erlendis.

Flugbjörgunarsveitin var fyrsta björgunarsveit á Íslandi sem kom sér upp öflugum og fullkomnum fjarskiptabúnaði og hefur frá fyrstu tíð staðið mjög framarlega í fjarskiptamálum. Smíðuð voru fjarskiptatæki og færanlegar fjarskiptastöðvar af félögum FBSR til að auðvelda leit og björgun því ekki voru á þeim tíma fjöldaframleidd senditæki sem hentuðu við íslenskar aðstæður. Nú eru allar björgunarsveitir á Íslandi mjög vel búnar fjarskiptatækjum. Ýmsan annan sérhæfðan búnað til björgunar úr flugslysum hefur FBSR haft til umráða.

Sveitinni er skipt niður í nokkra flokka, sem eru sérhæfðir hver á sínu sviði. Sem dæmi er t.d. fallhlífaflokkur með sérþjálfuðu björgunarfólki á ýmsum sviðum sem getur komist á vettvang stökkvandi með fallhlíf. Annar hópur er sérhæfður í fjallamennsku og fjallabjörgun, þriðji í fyrstuhjálp o.s.frv.

Fjáröflun til rekstrar félagsins er unnin af félögum í sjálfboðavinnu. Félagið fær einnig styrki frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum.

Samstarf

Árið 2020 eru 70 ár liðin frá stofnun Flugbjörgunarsveitarinnar og fjöldi félaga sem hefur gengið inn á áttunda hundrað. Allar björgunarsveitir og slysavarnarfélög á Íslandi eru sjálfstæðar einingar, en sameinuðust árið 1999 undir merkjum Slysavarnarfélagsins Landsbjörg. Áður höfðu Flugbjörgunarsveitir starfað frá árinu 1974 undir merkjum Landsambands flugbjörgunarsveita og frá 1991 sem Landsbjörg, landssamband björgunarsveita eftir samruna við Landssamband hjálparsveita skáta.

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík er sem áður sérhæfð björg.

Húsnæðismál FBSR

Á flakki í kringum flugvallarsvæðið

Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur frá stofnun haft aðsetur á þremur mismunandi stöðum. Til viðbótar hefur sveitin haft til umráða tvö geymsluhúsnæði, en alltaf hefur það verið á eða við flugvallarsvæðið í Reykjavík.

Upphafsárin 1950-1952 – Sveitin hafði ekki eigið húsnæði fyrstu tvö ár starfseminnar. Varð sveitin því að leita á náðir annarra félaga, til þess að halda fundi og inniæfingar. Fyrstu tvö árin, frá 1950-1952 fékk sveitin afnot af bragga Félags einkaflugmanna,sem staðsettur var í braggahverfi sem herinn skildi eftir sig á Reykjavíkurflugvelli, skammt frá þar sem flugstjórnarmiðstöðin er nú.Auk þess hafði sveitin afnot af fundarsal í eigu Sanitas við Lindargötu í Reykjavík.

Á sama tímabili, frá 1950-1952, fékk sveitin að geyma hluta af útkallsbúnaði sínum þar sem Flugmálastjórn rak miðunarstöð fyrir flugvélar. Var húsnæið staðsett til hliðar við braut 25 á Reykjavíkurflugvelli.

Þvottahúsið 1952-1964 – Á flugvallarsvæðinu þar sem nú er bílastæði á milli Hótel Natura og flugstjórnarmiðstöðvarinnar stóð frá stríðsárunum gamalt þvottahús hersins. Þegar herinn fór tók Flugmálastjórn við þessu húsi sem og fleirum á svæðinu. Árið 1952 afhenti Flugmálastjórn sveitinni húsið til afnota. Var það um 30 fermetrar að stærð og skiptist í tvö herbergi; funda- og kennsluherbergi og svo lítið geymsluherbergi fyrir útkallsbúnað. Skilaði sveitin þessu húsnæði árið 1964.
Bakdyr þvottahússins



Þvottahúsið. Fyrrverandi þvottahús hersins sem Flugbjörgunarsveitin fékk afnot af.

Flugmálastjórn átti einnig bragga sem stóð við grjótnámu í Öskjuhlíð, þar sem núverandi húsnæði er staðsett. Hafði grjót þaðan verið notað í hafnargarðana við Reykjavíkurhöfn og flutt þangað á einu járnbrautarlestinni sem notuð hefur verið hér á landi. Á árunum 1952-1964 fékk sveitin þennan bragga einnig til afnota og var hann nýttur undir bíladeildina.

Bragginn við grjótanámuna, þar sem núverandi húsnæði FBSR stendur í dag.

Braggarnir í Nauthólsvík 1964-1990 – Árið 1964 hafði sveitin stækkað talsvert og var þá farið að svipast um eftir stærra húsnæði á flugvallarsvæðinu. Tveir u.þ.b. 100 fermetra braggar stóðu skammt sunnan við Nauthól í Nauthólsvík og fengu menn augastað á þeim. Ekki er vitað hvaða hlutverki þeir gengdu á stríðsárunum en um þetta leyti var þar starfrækt röra- og gangstéttahellusteypustöð. Agnar Koefoed-Hansen, flugmálstjóri og einn stofnandi sveitarinnar, lét einangra og innrétta syðri braggann til nota fyrir innanhúsverkefni, en hinn bragginn var afhentur kaldur og hrár til geymslu bíla.

Þegar komið var inn í syðri braggann var fyrst komið inn í litla forstofu, svo inn í gang þar sem fatahengi og salerni voru til vinstri og skrifstofuherbergi til hægri. Þaðan var gengið inn í fundarsal sem var í miðju braggans. Handan salarins var komið inn í rými sem skiptist í eldhús og tvö minni herbergi, annað notað sem radíóherbergi og hitt til geymslu búnaðar og tækja. Dyr voru út úr vesturenda braggans, einskonar flóttaleið ef eldur kæmi upp í miðhlutanumBraggarnir við Nauthólsvík

Á árunum 1980-1985 hafði sveitin stækkað nokkuð og mönnum varð ljóst að tímabært væri að svipast eftir stærra húsnæði. Bauð Pétur Einarsson, þáverandi flugmálastjóri, sveitinni svokallað Gróðurhús vestan megin við flugvöllinn, en það var allstórt stálgrindarhús, um 150 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Hátt var til lofts á neðri hæðinni og sú efri með hefðbundna lofthæð. Þó fylgdi boðinu að nýta þyrfti hluta af neðri hæðinni til að geyma sand innandyra sem nota átti til að hálkuverja flugbrautina.

Húsið var ekki mikið stærra en braggarnir og þá var ekkert rennandi vatn eða rafmagn. Einnig hefði þurft að fara í talsverðar framkvæmdir, meðal annars að einangra betur milli hæða og byggja nýjan stigagang. Ljóst var að slík framkvæmd yrði umtalsvert viðamikil og dýr. Þá var talsvert lengri akstur fyrir flesta að fara vestur fyrir Háskólann á Melunum en að fara í Nauthólsvíkina. Var lán á húsinu því afþakkað.

Flugvallarvegur 1990- – Á þessum tíma var mönnum orðið ljóst að ekki væri um annað að ræða en að byggja hús frá grunni. Höfðu félagar augastað á lóðinni þar sem hús sveitarinnar stendur á núna og sóttu um hana til Reykjavíkurborgar. Þó talsverðan tíma hafi tekið að fá jákvætt svar fékkst það að lokum og var í kjölfarið skipuð byggingarnefnd og samið við teiknistofuna ARKO, en það var Jón Kaldal sem teiknaði húsið.

Var ákveðið að hafa tvö hús, annað á tveimur hæðum hugsað fyrir inniæfingar, fundi og stjórnstöð, en hitt vélasal ætlaðan bílum, vélsleðum, snjóbílum og öðrum tækjum og búnaði. Voru húsin tengd með tengibyggingu á einni hæð. Stefán Bjarnason, heiðursfélagi FBSR, endurnýjaði réttindi sín sem byggingameistari og tók að sér það starf. Þegar teikningar voru klárar og félagar höfðu samþykkt þær var samið við Byggingarfélagið Viðar um smíði hússins.

Sigurður M. Þorsteinsson, fyrrverandi formaður sveitarinnar, tók fyrstu skóflustunguna 11. ágúst 1987. Var vinna við húsið að miklu leyti aðkeypt með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði sem svipuð vinna hafði haft í för með sér hjá öðrum sveitum á svipuðum tíma. Alls voru haldnir 48 fundir byggingarnefndar hjá formanni sveitarinnar á þessum tíma, Ingvari Valdimarssyni. Húsið var svo vígt með athöfn á 40 ára afmælisdegi sveitarinnar, 24. nóvember 1990.

Á lóðinni sem sveitin fékk afhenta lóðina stórð þar gamall braggi (annar en fyrrnefndur bílabraggi). Fékk sveitin braggann afhendan 30. mars 1987, en þá var hann heldur óásjánlegur. Hefur hann síðan verið lagaður talsvert og er í dag notaður sem geymsla og verðandi aðstaða fyrir snjóbíl.

Ef frá er talið núverandi húsnæði sveitarinnar hafði sveitin í gegnum árin fengið alla aðstöðu að láni, sér að kostnaðarlausu, með aðkomu Flugmálstjórnar. Naut sveitin góðs af velvilja stjórnenda og starfsmanna stofnunarinnar sem seint verður þakkað fyrir að fullu. Er þar rétt að minnast aftur á aðkomu Agnars Koefoed-Hansen sem var alltaf boðinn og búinn til að hlaupa undir bagga með sveitinni.

 

Frumkvöðlar í fjarskiptamálum

Góð fjarskipti eru mikilvægur þáttur við leit og björgun og geta flýtt og auðveldað allt starf björgunarsveita við erfiðar aðstæður. Frá stofnun hefur Flugbjörgunarsveitin Reykjavík verið í fararbroddi í fjarskiptamálum fyrir leitar- og björgunaraðila og átti meðal annars fyrsta fjarskiptabíl í eigu björgunarsveita á Íslandi.

Fyrsti Fjallabíll FBS – Bedford.

 

Þegar sveitin var stofnuð gengu strax nokkrir starfsmenn Flugmálastjórnar til liðs við hana og var samstarf þar á milli mikið allar götur síðan. Þegar fyrsti bíll Flugbjörgunarsveitarinnar, Bedford árgerð 1942, var keyptur árið 1954 innréttuðu starfsmenn radioverkstæðis Flugmálastjórnar fjarskiptaklefa í bílinn með vönduðum talstöðvarbúnaði þess tíma. Fyrsta talstöð sveitarinnar var úr flugvél, en sendirinn var stór og mikill með tíðnisvið frá 1,8-18 mHz. Samanlögð þyngd sendis og tveggja viðtækja var um 100 kg. Loftnetsstöngin sem var á bílnum var um sex metra langt mastur sem reyst var upp þegar bíllinn var stopp. Á fyrstu árunum voru fjarskipti frá bílnum að mestu við flugturninn í Reykjavík og Reykjavík Radio, enda voru ekki til neinar ferðatalstöðvar  á þessum árum.

FBSR áskotnaðist einnig litlar skammdrægar handstöðvar frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli eftir sameiginlega æfingu árið 1954. Þær nýttust hins vegar illa og ekki er vitað til þess að þær hafi gagnast við leitarstörf. Á þessum árum kom mest allur fjarskiptabúnaður sveitarinnar frá Flugmálastjórn og komu starfsmenn radioverkstæðisins mikið að viðhaldi hans. Hins vegar bættust einnig nokkrir áhugasamir radioáhugamenn við sveitina og minnkuðu þá afskipti starfsmanna Flugmálastjórnar.

Fyrstu loftskeytatæki FBS frá 1954 ART 13 og BC Receiver

Árið 1958 hóf Landsími Íslands framleiðslu á hentugum talstöðvum í bíla, en stöðin heitir FF-3. Þetta voru straumfrek lampatæki og fyrst um sinn í fjórum kössum. Árið 1961 var úthlutað sérstakri tíðni fyrir bíla, 2790 kHz. Loftskeytastöðin í Gufunesi opnaði sólarhrings vöktun á þessari bílabylgju. Um svipað leiti var björgunarsveitum úthlutuð sérstök tíðni, 2912 kHz. Þar sem þessi tíðni er innan flugbandsins var FBS ábyrðaraðili tíðninnar, enda eina björgunarsveitin sem var kominn með talstöðvar að einhverju leiti. Fljótlega fengu aðrar björgunarsveitir sér fjarskiptatæki en þeim hafði fjölgað mjög á þessum árum, bæði hjá Slysavarnafélaginu og skátunum. Aldrei var neinn ágreiningur með að björgunarsveitir nýttu sér þessa tíðni 2912 sameiginlega, þó FBS væri rétthafi .

Bílatalstöð með fylgihlutum frá 1958.

Landsíminn gerði árið 1962 tilraunir með litla talstöð sem kölluð var „Fuglabjargastöð“ og var hugsuð fyrir björgunarskýli. Gunnar Jóhannesson, rafeindavirki og félagi í FBSR, var á þessum tíma einna helst í forsvari fyrir fjarskiptamál sveitarinnar. Hann gerði tilraunir með þessa stöð og úr varð talstöð á grind sem heppilegt var að bera svipað og bakpoka. Var sú stöð kölluð burðarstöð og reyndist afar vel þar til VHF-stöðvar komu til sögunnar um 1980. Smíðaðar voru 10 stöðvar og átti FBSR fjórar þeirra .

Gunnar Jóhannesson prófar sendi á Hvítasunnuæfingu


Burðartalstöðin.

Upp úr 1967 til 1970 fóru að koma svokallaðar CB talstöðvar sem urðu mjög vinsælar á skömmum tíma. Þetta voru lítil tæki á 27 mHz tíðnisviðinu. Langdrægni var þokkalega góð á þeim árum og nýttist því vel á afmörkuðum svæðum. Björgunarsveitir nýttu sér þessi tæki samhliða gömlu AM-bíla og burðastöðvunum og fengu sérrás fyrir sig á CB bandinu.

Árið 1964 fékk Flugbjörgunarsveitin svo afhenda tvo bragga í Nauthólsvík frá Flugmálastjórn og var þar strax komið upp fjarskiptaherbergi. Viðtækin í Nauthólsvík náðu betra merki en aðrir við ákveðin skilyrði en það helgast meðal annars af því að loftnetin fyrir viðtækin voru á milli bragganna sem voru járnklæddir, en með því voru rafmagnstruflanir frá borginni einangraðar. Þá hjálpaði einnig nálægðin við sjó og voru samskiptin við Reykjavík, þegar leit stóð yfir á landinu, oft best í bröggunum.

Stjórnstöð FBS í bragga sveitarinnar í Nauthólsvík

Loftnetum fyrir móðurstöðina í Nauthólsvík var á þessum tímafjölgað, enda fleiri tíðnisvið tekin í notkun og fjölgaði fjarskiptatækjum nokkuð.  Settur var upp sérstakur standur með nokkrum viðtækjum og fleiri sendar. Nú var hægt frá Nauthólsvíkinni að hafa samband bæði á miðbylgju með hlustun á sex bylgjum samtímis.  Á CB bandinu var hægt að hlusta og senda á öllum almennum rásum og sérrás björgunarsveitanna. Auk þess var komið upp talstöð á VHF bandi flugsins (118-136 mHz) og þar með beint samband við innanlandsflug og vallartíðnir flugturnsins á Reykjavíkur og Keflavíkurflugvelli. Flugfjarskipti innanlands voru flutt árið 1968 af  HF-AM mótuðum sendum yfir á VHF-FM mótaða senda og því var nauðsynlegt að setja þannig tæki í fjarskiptaherbergi FBSR og suma bílana.

Á árunum 1975-80 komu á markað VHF-talstöðvar á viðráðanlegu verði og um mitt árið 1978 var stofnað fjarskiptaráð björgunarsveitanna að frumkvæði almannavarna ríkisins. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að notast ætti við VHF-tíðnisviðið með fjölda endurvarpa á fjöllum og gæti það komið í stað gömlu HF AM mótuðu senditækjanna og CB-tækjanna. Settir voru upp sendar í húsnæði Flugmálastjórnar og hjá Landsímanum til að byrja með, en fyrsti endurvarpinn var settur upp í Bláfjöllum. Sá næsti fór upp á Vatnsnesfjall og sá þriðji á Vaðlaheiði. Þetta dugði skammt og fjölga þurfti sendum, en hvorki var rafmagn eða húsnæði þar sem koma þurfi fleiri sendum fyrir.

Algengur fjalltoppaendurvarpi

Sigurður Harðarson, félagi í FBSR og einn helsti fjarskiptaáhugamaður landsins, hóf þá að smíða endurvarpa sem nýttu sólarorku og gengju fyrir rafgeymum. Var kostnaður við slíkt tæki mun minni en við erlenda fjallatoppsendurvarpa. Flugbjörgunarsveitin Hellu fór með fyrsta slíka tækið á Goðastein á Eyjafjallajökli í ágúst 1986 og var reynslan það góð að ekki var aftur snúið. Fleiri endurvarpar voru smíðaðir og árið 2020 eru tæplega 60 slíkir endurvarpar á vegum björgunarsveita víðsvegar um landið.

Sigurður Harðarson.

NMT-farsímakerfið var svo formlega tekið í notkun 1. júlí 1986 og breytti miklu fyrir björgunarsveitir. Þar með var í fyrsta skipti hægt að hringja beint á milli staða án aðstoðar milliliða. Var á þessum tíma notast við NMT, langdrægar SSB-millibylgjustöðvar og svo þétt net VHF-endurvarpa í starfi björgunarsveitanna. Árið 2000 var svo TETRA-kerfið tekið í notkun, en það er helsta fjarskiptakerfi björgunarsveita í dag, ásamt VHF-kerfinu.

FBSR hefur frá stofnun verið í fararbroddi þegar kemur að fjarskiptalausnum og var með sérútbúna fjarskiptabíla allt frá árinu 1954 þegar gamli fjallabíllinn var innréttaður með stóru flugvélatalstöðinni, HF-AM mótaða sendinum ART-13 og viðtækjum. Allt vigtaði það um 100 kg. Síðan hafa þrír aðrir sérútbúnir bílar á vegum FBSR verið í notkun. FBS-3 var innréttaður 1972-73 og var notaður til 1994. FBS-11 (Skjaldbakan)  var notuð frá 1971-2005 og er nú til sýnis á Skógarsafni og að lokum FBS-1, Benz stjórnstöðvarbíll sem tekinn var í notkun árið 1990 og að lokum afhentur Flugbjörgunarsveitinni Hellu árið 2019 sem áframhaldandi stjórnstöðvar- og fjarskiptabíll.

FBS 3 Stjórnstöð árið 1990.

FBS 11 – Skjaldbakan

Fjarskiptaborð FBS 11, Skjaldbökunni.

Í dag notast Slysavarnarfélagið Landsbjörg við Björninn, sameiginlegan fjarskiptabíl fyrir allar björgunarsveitirnar og er hann rekinn auk sameiginlegrar stjórn- og fjarskiptamiðstöðvar í Skógarhlíð, en þar eru einnig Neyðarlínan, Landhelgisgæslan og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Flugbjörgunarsveitin er því ekki lengur með fjarskiptabíla né virka fjarskiptastarsemi í sínu húsi við Flugvallaveg til nota við stjórnun þegar leit og björgun stendur yfir. Áfram er þó vel haldið utan um fjarskiptabúnað FBSR. Hægt er að sjá alla muni í fjarskiptasögu sveitarinnar á Skógarsafni.

 

Kvennadeild FBSR

Það voru stórhuga konur sem á vordögum 1966 kom í hug að stofna kvennfélag í tengslum við Flugbjörgunarsveitina Reykjavík og var um sumarið unnið að hugmyndinni með fjáröflunum, svo sem tjaldsölum og kaffisölum. Áður höfðu nokkrar konur FBSR-manna, hópur sem hélt saman á öðrum sviðum, selt kaffi á fundum hjá körlunum þeim til styrktar. Þær voru ef til vill fyrstar með hugmyndina, en driffjörðin Ásta Jónsdóttir framkvæmdi hana svo til fulls og hóaði saman hópi til undirbúnings stofnunar félagsins. Ásta var eiginkona Sigurðar Þorsteinssonar, þáverandi formanns FBSR og voru þau alla tíð mjög áhugasöm um veg og vanda sveitarinnar.

Eiginleg stofnun kvennadeildarinnar var svo 24. nóvember 1966, á 16 ára afmælisdegi FBSR, með samþykkt laga og kosningu stjórnar undir formennsku Ástu. Í lögunum segir m.a. að markmið félagsins sé að styrkja Flugbjörgunarsveitina Reykjavík með fjáröflun og vinna að björgunarmálum. Kvennadeildin hefur þó aðeins farið út fyrir lagarammann í gegnum tíðina, meðal annars þegar gefin var upphæð í hjartabílinn, talstöð til Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og ekki síst með stórri fjárhæð til stjórnstöðvarbíls Landsbjargar sem þekktur er sem Björninn. Var kvennadeildinni þökkuð sú gjöf sérstaklega.

Á 30 ára afmæli kvennadeildarinnar árið 1996. F. vinstri: Hulda Filippusdóttir, Auður Ólafsdóttir, Ásta Jónsdóttir, Guðbjörg Jónsdóttir, Guðrún Waage, Erla Ólafsdóttir, María Karlsdóttir, Ingibjörg Árnadóttir

 

Stofnendur deildarinnar voru 24 konur samkvæmt fundargerð stofnfundar. Rétt til inngöngu í félagið áttu konur félagsmanna FBSR og konur tengdar þeim. Fljótlega bættust fleiri í hópinn og þegar deildin var sem fjölmennust voru 50 konur í henni, en misjafnlega virkar eins og gengur.

Farið var af stað með krafti strax fyrsta árið með tjaldsölu 17. júní. Næstu árin voru reglulegar kaffisölur, kökubasara, torgsölur o.fl. Þá urðu árlegar kaffisölur kvennadeildarinnar haust hvert frá 1967-1980 á Hótel Loftleiðum frægar að gæðum, en þær áttu sér stað í tengslum við merkjasölu FBSR.  Naut deildin þar velvildar hótelsins um aðstöðu.

Afraksturinn þessi ár var veglegur, því þetta félag með 30-40 virkum konum gaf FBSR stórgjafir. Þannig var björgunarsveitinni færðar peningagjafir og alls kyns tæki og búnaður fyrir starfsemina. Á átta ára afmæli deildarinnar var FBSR þannig færður Ford Econoline. Þá keypti kvennadeildin margt til félagsheimilisins, svo sem borð, stóla, borðbúnað o.fl.

Kvennadeildin hélt uppteknum hætti á níunda og tíunda áratugnum og var FBSR einstaklega sterkur bakhjarl. Þannig lagði deildin það mikið af mörkum til stjórnstöðvarbílsins gamla (Mercedes Benz trukkur – FBSR#1) að bíllinn var merktur kvennadeildinni. Síðasta stóra gjöf deildarinnar var svo stór og sterk yfirbyggð farangurskerra sem gefin var á 60 ára afmæli sveitarinnar og er enn í fullri notkun 10 árum síðar. Var hún sérsmíðuð að fengnum ráðum frá bílaflokki á þeim tíma.

Afhending faragurskerrunnar, gjöf Kvennadeildar á 60 ára afmælinu. Elsa Gunnarsdóttir, form. FBSR, Vigdís Fjeldssted, Margrét Björnsdótir, Margré Fjeldsted, Auður Ólafsdottir, Þóra Filippusdóttir, Hulda Filippusdóttir, Sif Ingólfsdóttir, Guðni Gunnarsson, formaður bílaflokks og Katrín Sæmundsdóttir.

 

Mánaðarlegir félagsfundir voru haldnir hjá deildinni fyrstu fjóra áratugina, frá september fram í maí, en hefur þó aðeins fækkað síðustu ár. Þar voru allar helstu ákvarðanir teknar sem og boðið upp á fróðleik og allskonar skemmtun. Sá kvennadeildin í nokkur ár um þorrablót FBSR, sem þá var haldið í Rafveituheimilinu í Elliðaárdal, eins og margar aðrar skemmtanir FBSR á þeim tíma.

Kvennadeildin vann mikið starf við að senda út miða í happdrætti sem FBSR stóð fyrir árið 1979 og vélritaði upp úr símaskrá hátt í 2.000 gíróseðla og gekk frá í umslög. Fyrir það framlag eignaðist deildin hlut í núverandi húsnæði svietarinnar þegar það reis áratugi síðar, herbergi á 2. hæð. Hefur aðstaða þeirra verið þar síðan, með þeirri breytingu þó að hafa fært sig milli hæða svo hægt væri að leigja efri hæðina í heilu lagi.

Félagskonur og gestir á 30 ára afmæli Kvennadeildar FBSR

 

Kvennadeild FBSR varð fljótlega sjálfstæður aðili að Landsambandi Flugbjörgunarsveita, en við stofnun Landsbjörg var deildinni úthýst og meðal annars á þeim forsendum að sjálfstæði deildarinnar var véfengt út frá nafninu sem jú tengdist FBSR. Frá þeim tíma hefur ekki neitt verið gert í að fá því breytt, enda þegar þá farið að þynnast hópurinn. Hefur engin nýliðun verið í félagatali deildarinnar í mörg ár og því eðlilega fækkun í tímana rás. Konurnar hafa elst, fallið frá eða snúið sér að öðrum verkefnum.

Með breyttum tíðaranda hefur ekki verið í tísku að vera í kvenfélagi og ekki jókst áhuginn á deildinni þegar konur fengu að ganga inn í FBSR, sem áður hafði aðeins verið karlaveldi. Eru konur nú stór hluti félaga FBSR og standa sig þar vel í starfi.

Kvennadeild FBSR verður seint þakkað nægjanlega fyrir þann stuðning sem hún hefur sýnt FBSR með gjöfum og aðstoð við að kaupa tæki og búnað. Í gegnum áratugi af ólgusjó hefur verið mikilvægt að eiga slíkan bakhjarl og stuðningshóp sér að baki sveitinni.

Jólafundur 2008: Jenný Guðlaugsdóttir, Unnur Gunnarsdóttir, Sigríður Eiríksdóttir , Edda Karlsóttir, Hulda Filippusdóttir, Þórunn Jónsdóttir, Katrín Sæmundsdóttir, Vigdís Fjeldsted, Margrét Björnsdóttir, Margrét Fjeldsted, Auður Ólafsdóttir, Erla Ólafsdóttir, Þóra Filippusdóttir, Guðrún Inga Guðjónsdóttir

Saga hunda hjá FBSR

Flugbjörgunarsveitin Reykjavík var fyrst allra viðbragðsaðila sem reið á vaðið að nýta hunda til leitar á Íslandi. Þann 14. júlí árið 1954 fékk sveitin sendan sérþjálfaðan sporhund af blóðhundakyni frá Bandaríkjunum, með góðfúslegu leyfi innflutningsyfirvalda.

Loftleiðir gáfu fragtina á hundinum sem var að jafnvirði 200 dollarar, enda þurfti hann tveggja sæta rúm. Hundurinn var 3 ½ ára og var sagður í góðri þjálfun enda verið þjálfaður í 3 ár. Slíkir hundar kostuðu þá eins og nú mikla fjármuni, en Flugbjörgunarsveitin fékk andvirði hundsins að gjöf, heilar 9.000 kr. frá ónefndum aðila. Veiðafæraverslunin Geysir hafði líka styrkt kaupin á hundinum og fleiri styrktaraðilar höfðu einnig lagt sitt af mörkum. Timburverslunin Völundur gaf efni í kofa, enda þóttu þessir sporhundar ekki hæfir inni í húsum manna og þyrfti að vista þá í eigin hundakofum. Kofinn var byggður upp á Vatnsenda og sagt var að hundurinn, sem nefndur var Jake, enda fæddur vestanhafs, þekkti vel Fordson bíl þjálfara síns og byrjaði að ólátast af spenningi þegar Fordson var ekið upp Vatnsendahæðina.

Hundurinn Jake kominn til landsins.

 

Gottfred Bernhöft, sem var sagður manna sérfróðastur um hunda, hafði haft milligöngu um að fá hundinn og sagði sporhunda geta rakið slóð allt að 170 mílur. Þessi tegund hunda væri sérlega meinlaus og gerði hvorki barni mein, né skepnum. Helstu áhyggjur manna snéru að kostnaði við fóðrun, enda vó hundurinn 100 pund og því talinn þungur á fóðrum. Upplýst var frá heimildum vestanhafs að kostnaðurinn gæti verið milli 15-20 kr. á dag. Sveitin var þó svo heppin að Hvalur h.f. gaf sporhundinum kjöt og var það sagt að hann hámaði í sig um 1,5 tonn af hvalkjöti yfir árið, en það var soðið ofan í hann og gefið ásamt brauði. Hundurinn var afar heilsuhraustur og hafði ekki fengið nema tvær vítamínsprautur um ævina, en hann var undir reglulegu eftirliti dýralæknis.

Sporhundur Flugbjörgunarsveitarinnar Reykjavík hann Jake var fyrst í gæslu Sigurðar Þorsteinssonar lögreglumanns og þriðja formanns félagsins, sem sagði að hægt yrði að fljúga með hundinn hvert á land sem væri, þar sem hans væri þörf hverju sinni. Ráðgert var að fara með hann fljótlega eftir komu á Mýrdalsjökul þegar leit yrði að líkum og braki úr bandarískri flugvél sem þar fórst árinu á undan. Jón Guðjónsson, sem starfaði með Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði, en var í góðu samstarfi við Flugbjörgunarsveitina Reykjavík, tók síðar við umsjón Jake og þjálfun. Nokkrar sögur fóru af frammistöðu Jake, en mest var hann notaður á vegum lögreglu. Þegar hann fór að eldast var honum fengin tíkin Dúna til sambúðar í kofanum.  Þeim var ætlað að fjölga kyninu því ljóst var að Jake þyrfti brátt að víkja fyrir yngri og dugmeiri starfsbróður, enda sagt að allir sem til þekktu hafi verið sammála um að sporhundur væri ómissandi.

Sigurður M. Þorsteinsson og Jake.

 

Jake og Dúna náðu ekki að fjölga kyninu hér á landi svo vitað sé, þó Jake hafi átt afkvæmi með öðrum tíkum sem hann hafði haft kynni af. Jón þjálfari Jake vann þess vegna að því að keyptur yrði til landsins nýr sporhundur, enda Jake farinn að eldast. Þó var haft eftir Jóni að íslenski hundurinn gæti líka orðið góður sporhundur ef hann fengi rétta þjálfun, því í stórum fjárrekstrum hafði ekki verið óvanalegt að hundarnir hafi rakið slóða húsbænda sinna þó þeir hafi þurft að leita um allan bæ. En Jón lést skyndilega í júlí árið 1960 áður en kaup á nýjum sporhundi var alveg í höfn og var sagt skarð hoggið í Hjálparsveit skáta við fráfall hans. Þá lagði Reykjavíkurborg til 16.000 kr ásamt öðrum aðilum til kaupa á nýjum sporhundi. Gottfred Bernhöft hafði aftur milligöngu um að útvega nýjan sporhund og kom hann til landsins gamlaársdag 1962 og fragtin enn í boði Loftleiða. Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir hafði eftirlit með heilsu hundsins og aðbúnaði eftir komuna til landsins. Hundurinn var strax skírður Nonni til heiðurs Jóni Guðjónssyni. Margir vildu leggja verkefninu lið og Loftur Bjarnason, forstjóri Hvals, bauðst til að gefa hundinum allt það kjöt sem hann gæti í sig látið. Einnig buðu fleiri aðilar fram matargjafir fyrir hundinn, því ekki átti leitarhundurinn að svelta. Þjónusta Nonna var í boði fyrir land og lýð og var þeim sem óskaði eftir aðstoð bent á að hafa samband við lögregluna í Hafnarfirði eða Reykjavík, Slysavarnarfélag Íslands eða Flugbjörgunasveitina.

Eftir sporhundinn Jake, fyrsta hund hjá Flugbjörgunarsveitinni Reykjavík og á Íslandi til leitar á týndu fólki, liðu svo 60 ár áður en næsti hundur kom til þjónustu hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur. Það var blendingurinn Syrpa. Hún er frá bænum Varghól úr Holtunum, þó sannarlega enginn vargur sé heldur prúðmenni mikið. Hún er af ættum fjárhunda, aðallega border collie með ögn af genum frá íslensku fjárhundakyni. En þráhyggjuna fyrir boltum og leit hefur hún klárlega frá border collie erfðamenginu. Hún nær vart 38 pundum og matarkostnaður því hóflegur. Ekki þarf hún heldur eigin kofa, en lætur sér nægja mjúkt bæli undir borði heima hjá þjálfara sínum, Þóru Jónasdóttur. Eftir lofandi frammistöðu Syrpu á snjóflóðaæfingu haustið 2014 ákvað Þóra að hefja störf með FBSR og þjálfa Syrpu upp og árið 2017 var Syrpa komin með A skírteini í snjóflóðaleit og víðavangsleit.

Fyrsta útkall Syrpu var „leitin að Birnu“ þegar fyrsta vísbendingin fannst. Þá leitaði Syrpa stóran hluta hafnarsvæðisins í Hafnarfirði um nóttina, og eftir 4 klst. hvíld var byrjað aftur á hádegi og leitaður bæði hafnargarðinn og golfvellir í um 8 klst. til viðbótar með stuttum hléum. Oftast er miðað við að hundar þurfi hvíld eftir 3 klst leit, en þarna koma þráhyggja Syrpu sér vel og trúin á að hún fengi boltaleik í verðlaun ef hún finndi hinn týnda hélt henni gangandi með fulla athygli í allan þennan tíma. Flest önnur útköll hingað til hafa verið í víðavangsleit, en Syrpa hefur einnig farið í tvö snjóflóðaútköll.

Hunda- og snjóflóðaleitaræfing.

 

Síðan Syrpa gekk inn í FBSR hafa fleiri hundar og hundaþjálfarar bæst í hópinn svo leitarhundahópur FBSR er aftur orðinn að veruleika. Til viðbótar við Syrpu eru nú þrír hundar sem stefndu á útkallspróf í snjóflóðaleit í mars 2020, einn border collie, einn labrador retriever og einn blendingur af þessum tveim tegundum.


FBSR árið 2020

Frá því að Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík var stofnuð árið 1950 hafa miklar breytingar bæði orðið á björgunarstarfi almennt og starfsemi sveitarinnar. Sveitin var stofnuð vegna þess að þörf var á sérhæfðri fjallabjörgunarsveit sem gat brugðist við flugslysum á hálendinu. Þó það sé enn eitt af grunnmarkmiðum sveitarinnar hefur umfang starfseminnar aukist mikið síðan þá og þá er sérhæfingin einnig orðin miklu meiri á fjölmörgum sviðum, líkt og almennt má sjá í björgunarstarfi hér á landi. Félögum hefur einnig fjölgað jafnt og þétt yfir áratugina, ekki síst á þessari öld.

Upphaflega voru flokkar í sveitinni kenndir við mismunandi bókstafi. Þannig voru starfandi A-flokkur, B-flokkur, C-flokkur o.s.frv. Þarna var ekki horft til þess að hver hópur væri sérstaklega sérhæfður í ákveðnum verkefnum, heldur voru þetta vinir og kunningjar sem mynduðu útkallskjarna í hverjum hóp og átti hver hópur að vera með góða almenna útkallsþekkingu. Þegar nýliðaþjálfun var sett af stað í fyrsta skiptið árið 1963 af Magnúsi Þórarinssyni hafði B-flokkurinn verið lagður niður og félagar þar dreifst á aðra flokka. Var þá ákveðið að notast við B-flokkaheitið fyrir nýliðana sem lögðu upp í tveggja ára þjálfun og kláruðu hana og gengu inn árið 1965.

Síðar meir urðu flokkarnir að sérhæfðum útkallsflokkum og er það skipulag í gildi í dag, enda í takt við starfsvenjur hjá Landsbjörg. Í dag  starfa innan sveitarinnar 9 útkallsflokkar, en til viðbótar eru stuðningsflokkar, nýliðaflokkar, heimastjórn og hópar sem koma að stjórnun sveitarinnar og daglegum rekstri. Enn er þó notast við B-flokkaheitið yfir nýliðaflokkana, B1 og B2 eftir árum í þjálfun.

Nýliðahópur á snjóflóðanámskeiði.

Nýjasti flokkurinn er endurvakinn snjóbílaflokkur, auk þess sem straumvatnsflokkur er frekar nýlega tilkominn. Undir leitarflokki hafa svo myndast sérhæfðari hópar nýlega; hundahópur og drónahópur.

Útkallsflokkar

  • Bílaflokkur
  • Björgunarflokkur
  • Fallhlífaflokkur
  • Fjallaflokkur (undanfarar)
  • Leitarflokkur
    • Hundahópur
    • Drónahópur
  • Sleðaflokkur
  • Straumvatnsflokkur
  • Snjóbílaflokkur 
  • RNSA hópur

Aðrir flokkar

  • Nýliðar B1 og B2  
  • Sjúkraflokkur
  • Heimastjórn
  • Lávarðar
  • Kvennadeild
  • Hús og birgðasvið

Stjórnun

  • Stjórn
  • Framkvæmdaráð

Frá upphafi hafa gengið inn í sveitina á áttunda hundrað félagar. Af þeim eru virkir félagar, sem mæta í allavega eitt útkall á ári, á bilinu 110-150. Þegar horft er til fjölda þeirra sem koma eitthvað að starfi FBSR á hverju ári er sá fjöldi á milli 200 og 300. Af virkum og óvirkum félögum er meðalaldurinn rúmlega 48 ár. Þegar aðeins er horft til virkra félaga á starfsárinu 2019-2020 var meðalaldurinn 40,9 ár.



Nýliðaþjálfun FBSR er strangt tveggja ára prógramm þar sem nýliðar læra allt frá grundvallaratriðum ferðamennsku og rötunar yfir í sérhæfðari atriði eins og fjalla- og félagabjörgun, snjóflóðaleit og leitartækni. Í gegnum tíðina hefur mikil áhersla verið á að kenna fólki að bjarga sér í óbyggðum og þegar fólk gengur inn í sveitina er það jafnan komið með mikla reynslu af allskonar ferðamennsku, ekki síst að vetri til. Fyrir inngöngu þreyta nýliðar einskonar inngöngupróf í formi „Heljarhelgarinnar“ og er það flestum mikil lífsreynsla. Á aðalfundi á öðru ári eru nýir félagar svo teknir formlega inn í sveitina og hefja starf með útkallsflokkum.

Snjósleðahópur í útkalli.

Sveitin er að mestu rekin með sjálfsaflarfé og skipta þar þrjár fjáraflanir mestu máli. Það eru flugeldasala, neyðarkallasala og jólatrjáasala. Að auki leigir sveitin út hluta húsnæðisins og hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa verið þar í meira en áratug. Þá fær sveitin einnig styrki frá Landsbjörg, Reykjavíkurborg og ýmsum góðvinum sveitarinnar.